Áskriftarskilmálar Jónsbókar

Raxiom ehf., kt. 570724-1180, Hlíðarvegi 16, 200 Kópavogi („félagið“), er eigandi að gervigreindarhugbúnaðinum Jónsbók („Jónsbók“). Sá aðili sem skráir sig í áskrift að Jónsbók og greiðir áskriftargjald fyrir hana telst áskrifandi í skilningi þessara áskriftarskilmála og fær aðgang fyrir þeim fjölda notenda sem hann skráir sig fyrir.

Með því að skrá sig í áskrift að Jónsbók kemst á samningssamband milli félagsins og áskrifanda. Þá staðfestir áskrifandi jafnframt að hafa kynnt sér eftirfarandi áskriftarskilmála („áskriftarskilmálarnir“) og samþykkir að hlíta þeim.

Skyldur áskrifanda

Áskrifandi ber ábyrgð á því að notkun hans og notenda á hans vegum á Jónsbók brjóti ekki gegn lögum, reglum eða réttinda annarra.

Áskrifanda og notendum hans ber einnig að hlíta notendaskilmálum félagsins eins og þeir eru á hverjum tíma birtir á heimasíðunni https://jonsbok.ai.

Persónuvernd

Félagið leggur áherslu á að öll vinnsla persónuupplýsinga sé í samræmi við gildandi persónuverndarlög. Persónuverndarstefna félagsins er aðgengileg á heimasíðunni https://jonsbok.ai.

Hugverkaréttindi

Öll hugverkaréttindi (hvort sem um ræðir höfundarétt, einkaleyfi, vörumerki, hönnunarréttindi, réttindi í viðskiptaleyndamálum eða annað) í hugbúnaði og öðrum vörum eða þjónustu, sem félagið veitir aðgang að samkvæmt áskriftarskilmálunum, er eign félagsins eða þriðju aðila, sem félagið hefur samið við, og er áskrifanda óheimilt að hagnýta sér hugverkaréttindi eða veita þriðja aðila aðgang að þeim nema sérstaklega sé samið um annað. Ekkert í þessum skilmálum framselur hugverkaréttindi til áskrifanda eða veitir áskrifanda á annan hátt leyfi til notkunar hugverkaréttinda félagsins umfram gildissvið og gildistíma skilmála þessara.

Ekkert í skilmálum þessum takmarkar ráðstöfunarrétt félagsins á hugverkaréttindum sínum. Félagið hefur því ótakmarkaða heimild til notkunar hugverkaréttinda sinna m.a. við áframhaldandi þróun á Jónsbók, annarra vara og þjónustu, leyfisveitingu til þriðju aðila og framsal eða veðsetningu réttinda til þriðju aðila.

Áskrifanda er óheimilt að nýta sér hugverkaréttindin á nokkurn hátt sem ekki er mælt skýrlega fyrir um í skilmálum þessum.

Leyfi fyrir notkun Jónsbókar í starfsemi áskrifanda

Áskrifanda er heimilt að nota Jónsbók í starfsemi sinni, svo framarlega sem áskrifandi fullnægir þessum áskriftarskilmálum og notendaskilmálum félagsins og áskrifandi stendur skil á áskriftargjöldum til félagsins.

Vanefndir

Greiði áskrifandi ekki þau gjöld sem kveðið er á um í áskriftarskilmálum þessum skal félagið senda honum skriflega áskorun um úrbætur. Sinni áskrifandi ekki greiðsluáskorun innan 30 daga frá dagsetningu hennar, er félaginu heimilt að loka fyrir aðgang áskrifanda að Jónsbók.

Félaginu er heimilt að loka fyrir aðgang áskrifanda að Jónsbók og segja upp áskrift hans án fyrirvara komi til þess að (a) gert verði fjárnám hjá áskrifanda, (b) hann óski eftir greiðslustöðvun, (c) hann óski eftir eða geri nauðasamninga eða samninga við almenna kröfuhafa um niðurfellingu skulda að hluta, (d) beiðni sé lögð fram um gjaldþrotaskipti, eða (e) beiðni sé lögð fram um nauðungarsölu eigna áskrifanda.

Áskrifanda ber að greiða áfallin þjónustugjöld komi til riftunar áskriftarinnar. Áskrifandi skal einnig bæta félaginu allt tjón í kjölfar þess að félagið riftir áskriftinni, þ.á m. en ekki eingöngu vegna samnings við birgja félagsins um greiðslu leyfis, viðhalds- eða þjónustugjalda, innheimtukostnað, lögmannskostnað o.s.frv.

Um vanefndarúrræði að öðru leyti fer samkvæmt lögmæltum og venjubundnum vanefndaúrræðum.

Tengiliðir

Áskrifandi skal senda allar tilkynningar á hallo@jonsbok.ai.

Ábyrgð

Félagið ábyrgist að hafa á hverjum tíma hæfni, getu og nauðsynleg réttindi til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt áskriftarskilmálunum.

Notendur bera ábyrgð á notkun sinni á Jónsbók og hvernig þeir nýta þær upplýsingar sem þeir fá frá Jónsbók. Notendur geta ekki treyst því að upplýsingar sem þeir fá frá Jónsbók séu réttar í öllum tilvikum og skulu sjálfir ganga úr skugga um að svo sé áður en þeir nýta upplýsingarnar í þágu eigin verkefna.

Félagið verður ekki krafið um bætur ef tjón má rekja til óviðráðanlegra atvika (force majeure), s.s. tjóns sem þriðji aðili veldur, bilunar, truflana eða óvirkni hugbúnaðar, vélbúnaðar eða fjarskiptabúnaðar, rafmagnsbilana eða rafmagnsleysis, bilana í nettengingum, inngrips löggjafa eða stjórnvaldsaðgerða, yfirstandandi eða yfirvofandi stríðsátaka, uppþots, borgaralegs óróa, skemmdarverka, spellvirkja (spellvirki í þessu sambandi nær einnig yfir tjón af völdum tölvuárása, tölvuglæpa eða tölvuveira) eða hryðjuverka, náttúruhamfara, verkfalla, verkbanns, viðskiptabanns eða hafnarbanns eða annarra sambærilegra atvika sem koma í veg fyrir að félagið geti efnt áskriftarskilmálana.

Bótaábyrgð félagsins er háð því að starfsmenn eða undirverktakar á vegum félagsins hafi sýnt af sér ásetning eða stórfellt gáleysi. Bótaábyrgð félagsins skal einnig í öllum tilvikum vera takmörkuð við áskriftargreiðslur sem greiddar hafa verið af áskrifanda síðastliðna 12 mánuði. Um ábyrgð félagsins að öðru leyti fer eftir almennum reglum um skaðabætur innan samninga.

Trúnaður

Félagið og starfsmenn þess eru bundnir trúnaðar- og þagnarskyldu um allt það, sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar einka- eða viðskiptamálefni áskrifanda og/eða notenda, nema skylt sé að veita upplýsingarnar lögum samkvæmt. Þessi trúnaðar- og þagnarskylda helst þó að látið sé af starfi. Áskrifandi skal gæta fyllsta trúnaðar um málefni félagsins sem hann fær vitneskju um vegna samningssambands síns við félagið.

Trúnaðarskylda aðila er ótímabundin og skal hún gilda eftir lok samningssambands með hvaða hætti sem þau ber að.

Framsal og þjónusta þriðja aðila

Áskrifanda er ekki heimilt að framselja réttindi og skyldur sínar samkvæmt áskriftarskilmálum þessum eða ráðstafa þeim á annan hátt, án skriflegs samþykkis félagsins.

Félaginu er heimilt að nýta þjónustu eða búnað þriðja aðila (s.s. verktaka) að því tilskildu að félagið tryggi að þriðji aðili sé hæfur til viðkomandi verks og að þriðji aðili, og starfsmenn á hans vegum, séu bundnir trúnaði um allt sem þeir verða varir við í störfum sínum.

Gildistími og uppsögn

Áskriftarskilmálar þessir gilda ótímabundið. Hvor aðili fyrir sig getur sagt upp áskriftinni með 30 daga fyrirvara og uppsögn tekur gildi við lok næsta áskriftartímabils.

Við lok samningssambands aðila, sama með hvaða hætti þau verða, eyðir félagið öllum aðgöngum sem hafa verið stofnaðir á grundvelli áskriftarsamnings við áskrifanda. Þá geta notendur ekki lengur skráð sig inn á Jónsbók og séð sögu um eldri samtöl sem þeir hafa átt við Jónsbók.

Breytingar á áskriftarskilmálum

Félagið áskilur sér rétt til að breyta skilmálum þessum og munu breytingar verða tilkynntar áskrifendum með tölvupósti eða við næstu innskráningu eftir að breytingarnar taka gildi.

Gildandi lög og úrlausn ágreiningsmála

Íslensk lög gilda um þessa áskriftarskilmála.

Öll ágreiningsmál á grundvelli eða í tengslum við þessa skilmála skulu eingöngu rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.